Chat with us, powered by LiveChat

FÉLAGSBÚSTAÐIR BREGÐAST VIÐ SKÝRSLU INNRI ENDURSKOÐUNAR REYKJAVÍKUR

Fréttir

Stjórn Félagsbústaða hefur ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á starfsemi og innra eftirliti félagsins í kjölfar úttektar sem gerð var vegna umframkostnaðar við endurbætur á 53 íbúðum Félagsbústaða við Írabakka í Reykjavík.

Í maí 2016 óskuðu stjórn og framkvæmdastjóri Félagsbústaða eftir því við innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að hún gerði úttekt á viðhaldsverkefni félagsins við Írabakka 2-16 á árunum 2012 -2016. Fyrir lá að ýmsar brotalamir höfðu verið á framkvæmd og skipulagi verkefnisins.

Skýrsla Innri endurskoðunar var nýlega kynnt fyrir stjórn og komu þar fram alvarlegar athugasemdir við stjórnhætti í tengslum við umrætt verkefni.  Þrátt fyrir að undanfarin ár hafi stjórn félagins átt í góðu samstarfi við framkvæmdastjóra um margþættar úrbætur á rekstri félagsins hefur framkvæmdastjóri, í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu í skýrslu Innri endurskoðunar, kosið að segja starfi sínu lausu í þeirri von að sátt skapist um rekstur félagsins og svigrúm til frekari endurbóta. 

Úttektin leiddi í ljós að á fjögurra ára tímabili sem hún tók til samþykkti stjórn framkvæmdir fyrir 398 m.kr.  Árið 2012 var farið af stað með viðhaldsverkefni upp á 44 milljónir króna til að skipta út gluggum, ofnum og tréverki á Írabakka 2-16, en fljótlega kom í ljós að mun meira viðhalds var þörf. Því samþykkti stjórn næstu fjögur ár framkvæmdir fyrir 398 m.kr.

Heildarkostnaður Félagsbústaða vegna þessara framkvæmda reyndist að lokum 728 milljónir króna sem er 330 milljónir króna umfram þær heimildir sem stjórnin veitti á framkvæmdatímanum og felur í sér 83% framúrkeyrslu. Úttektin leiðir í ljós að skerpa þarf á verkferlum og setur Innri endurskoðun Reykjavíkur fram margvíslegar ábendingar um hvernig bæta má innra eftirlit Félagsbústaða.

Stjórn Félagsbústaða telur ábendingar Innri endurskoðunar gagnlegar og hefur samþykkt að vinna að úrbótum í samræmi við þær. Sigrún Árnadóttir, fyrrum bæjarstjóri í Sandgerði og áður framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, hefur verið ráðinn sem starfandi framkvæmdastjóri þar til ráðinn verður nýr framkvæmdastjóri í kjölfar auglýsingar. Hlutverk Sigrúnar verður að vinna með stjórn félagsins að því að bæta verkferla og að hrinda úrbótum í framkvæmd sem koma fram í úttekt Innri endurskoðunar.

Meðal ábendinga sem Innri endurskoðun setur fram er að þegar fyrirséð eru mikil frávik frá samþykktum áætlunum beri að sækja formlega um viðbótarfjárheimildir til stjórnar áður en stofnað er til útgjalda.  Ennfremur er áréttað að Félagsbústöðum beri að hlíta lögum um opinber innkaup og koma á innkaupaferli sem felur meðal annars í sér að fram fari útboð þegar kostnaðaráætlun fer yfir viðmiðunarfjárhæðir. Þá er bent á að stjórn Félagsbústaða þurfi að setja félaginu innkaupastefnu til að stuðla að góðri innkaupastjórn og eyða óvissu um verklag við innkaup.

Nánari upplýsingar:

Haraldur Flosi Tryggvason stjórnarformaður: s: 840 0575

Askur
Veglegur styrkur úr Aski mannvirkjasjóði
Opnun á íbúðaskjarna að Vesturgötu 67
Nýr og glæsilegur íbúðakjarni við Vesturgötu
mynd mneð frétt
Breytingar til jöfnunar leiguverðs íbúða Félagsbústaða
Skoflustunga-Brekknaas-1
Hannað með tilliti til þarfa væntanlegra íbúa hússins
image-1
Samningur um nýbyggingu við Brekknaás
merki-fjorflokkarnir
Breytingar á sorphirðu og flokkun
23051902_skoflust_016.t64676b73.m800
Stefnt að 30% minna kolefnisspori við byggingu íbúðakjarna fyrir fatlað fólk
Picture1
Utanhússframkvæmdir að Barónsstíg 30 og Bergþórugötu 41-45, sumarið 2023

Að hverju ertu að leita?