Chat with us, powered by LiveChat

SAMNINGUR

Eftir að þú hefur skoðað íbúðina og ákveðið að þiggja hana, bókar þú tíma í undirritun leigusamnings með því að hafa samband við þjónustuborðið okkar.

Eftir að þú ert búin að ákveða að taka íbúðinni sem þér var úthlutað skaltu bóka tíma í leigusamning. Við vekjum athygli á því að í sumum tilvikum þarftu að ganga frá samning í þjónustumiðstöð áður en hægt er að koma í leigusamning. Félagsráðgjafinn þinn mun upplýsa þig um það ef svo er.

Leigusamningar eru undirritaðir á skrifstofu Félagsbústaða. Það tekur um 30-45 mínútur að fara í gegnum samninginn. Þjónusturáðgjafar munu fara yfir öll helstu ákvæði samningsins, ræða leigugreiðslur, hússjóð, húsaleigubætur, gildistíma, viðhald, umgengni, húsreglur og fleira. 

Í boði er að undirrita leigusamninga rafrænt. Til þess að það sé hægt þurfum við upplýsingar um netfang og símanúmer tengt þínum rafrænu skilríkjum. Ætlir þú að undirrita rafrænt fer þjónusturáðgjafi yfir alla helstu þætti samningsins með þér í síma. Að því loknu færðu sendan tölvupóst með hlekk til rafrænnar undirritunar. Þú þarft þó alltaf að nálgast lyklana að nýju íbúðinni á skrifstofunni okkar í Þönglabakka 4. Við hvetjum þig til þess að óska efti rafrænni undirritun sé komið að endurnýjun á leigusamningnum þínum

Eftir að þú ert búin að undirrita leigusamninginn og fá svör við öllum spurningum sem þú kannt að hafa muntu fá afrit af samningnum til að taka með þér heim. Á samningnum er að finna fastanúmer íbúðar til skráningar á umsókn um húsnæðisbætur. Þar er einnig að finna kennitölu Félagsbústaða en þú skalt setja kennitölu Félagsbústaða sem leigusala á umsókn um húsnæðisbætur og umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning til að greitt sé til okkar beint. Þar sem óskað er eftir reikningsupplýsingum Félagsbústaða á umsókninni skaltu núllfylla reitinn. 

Við undirritun muntu fá lykla að nýju íbúðinni þinni. 


Eftir að samningur hefur verið undirritaður er mikilvægt að þú hugir að því að:

  • Færa lögheimilið þitt hjá Þjóðskrá.
  • Sækja um húsnæðisbætur á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Húsnæðisbætur verða svo greiddar beint til Félagsbústaða sem draga þær frá húsaleigu. 
  • Sækja um sérstakan húsnæðisstuðning, ef við á, sem sótt er um í viðkomandi miðstöð hjá Reykjavíkurborg. Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárhagsstuðningur til greiðslu á húsaleigu, umfram almennar húsnæðisbætur og er ætlaður fjölskyldum og einstaklingum sem þurfa aðstoð til framfærslu heimilis. Umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning gildir í 12 mánuði frá umsóknardegi. Mikilvægt er að endurnýja umsókn hjá miðstöð innan 12 mánaða frá umsóknardegi á ári hverju. Sérstakur húsnæðisstuðningur greiðist líka beint til Félagsbústaða og kemur til frádráttar á leigu.  

Einstaklingar, sem skráðir eru einstæðir og búa einir geta auk þess átt rétt á heimilisuppbót, sem greiðist beint til einstaklinga. Einnig er heimilt að greiða heimilisuppbót til lífeyrisþega ef maki dvelur á stofnun fyrir aldraða. Sjá nánar á vef Tryggingastofnunar.

Að hverju ertu að leita?