Fara á efnissvæði
 • Hver annast gerð húsaleigusamnings?

  Þjónusturáðgjafar Félagsbústaða annast gerð húsaleigusamninga.

  Ef þú ert búin/n að skoða íbúðina sem þú fékkst úthlutað getur þú bókað tíma í leigusamning alla virka daga frá kl. 9-15 í síma 520-1500.

 • Hvert á að leita vegna slæmrar umgengni eða brota á húsreglum?

  Ef þú býrð í húsi þar sem um er að ræða húsreglnabrot viljum við heyra af því. Sendu okkur tölvupóst, hafðu samband á netspjallinu eða hringdu og við skráum málið niður og bregðumst við eftir því sem við á. Við viljum alltaf vita meira frekar en minna.

 • Hver ber ábyrgð og kostnað á skemmdum á íbúðum Félagsbústaða?

  Ef leigjandi eða aðili honum tengdur hefur valdið skemmdum þá ber hann ábyrgð og gæti þurft að greiða viðgerðarkostnað. Skemmdir af völdum utanaðkomandi þátta, s.s. veðurs, náttúruhamfara eða ótengdra aðila eru á ábyrgð og kostnað Félagsbústaða.

 • Er leyfilegt að leigja til ferðamanna eða annarra aðila?

  Framleiga íbúða Félagsbústaða til ferðamanna eða annarra aðila, til lengri eða skemmri tíma, að hluta til eða í heild, er með öllu óheimil samkvæmt ákvæðum leigusamninga og ákvæðum húsaleigulaga. Slík framleiga samræmist heldur ekki tilgangi hinnar félagslegu aðstoðar sem liggur að baki öllum leigusamningum Félagsbústaða, þar sem færri komast að en vilja og þurfa. Búast má við tafarlausri riftun samninga við broti á þessu banni. 

 • Hver ber ábyrgð á lóðaumhirðu?

  Félagsbústaðir annast sjálfir lóðaumhirðu á lóðum og í sameign í þeim fjölbýlishúsum sem við eigum  að fullu. Viðkomandi húsfélag annast viðhald á lóðum og sameign þar sem við eigum stakar eignir.

  Ef íbúð fylgir einkagarður ber leigjandi sjálfur  ábyrgð á almennri lóðaumhirðu, þ.e. að slá gras, hreinsa beð og klippa tré svo garður sé snyrtilegur. Einnig getur leigjandi þurft að annast annarskonar sameignarskyldur, s.s. þrif á sameiginlegum rýmum og umsjón með sorpgeymslum háð samþykktum hvers húsfélags fyrir sig. Ef því er ekki sinnt áskilja Félagsbústaðir sér rétt til að láta framkvæma slíkt á kostnað leigjanda.

 • Hvernig skal bera sig að við uppsögn á leigusamningi?

  Ef þú ætlar að flytja annað skaltu láta okkur vita með tölvupósti. Við munum leiðbeina þér með næstu skref og með það hvenær þú þarft að skila íbúðinni. Mundu að þú þarft alltaf að vera búin/n að tæma íbúðina og gera létt þrif áður en þú skilar okkur lyklum að henni.

 • Hver annast úthlutun á íbúðum Félagsbústaða?

  Miðlægt teymi hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar ákveður hverjir fá úthlutað í íbúðir Félagsbústaða. Sjá nánar hér.

 • Á ég rétt á húsnæðisbótum?

  Já, í flestum tilvikum hafa leigjendur okkar rétt á húsnæðisbótum. Nánari upplýsingar um húsnæðisbætur og umsóknir eru á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar  

  Húsnæðisbætur greiðast til Félagsbústaða og koma til frádráttar á leigu einstaklinga. Það sama á við um sérstakan húsnæðisstuðning á vegum Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. 

  Einstaklingar, sem skráðir eru einstæðir og búa einir geta átt rétt á heimilisuppbót. Styrkurinn greiðist til einstaklinga. Sjá nánar á vef Tryggingastofnunar.

 • Hversu langt líður á milli þess sem íbúð er máluð?

  Íbúðir eru að jafnaði málaðar á sjö til átta ára fresti frá því að leigjendur flytja inn nema að aðrar ástæður komi til, s.s. skemmdir, staðbundnar aðstæður og fleira. Matsmenn Félagsbústaða ákveða hvort og hvenær þurfi að mála. Ef þú telur kominn tíma til að mála þína íbúð skaltu hafa samband og við skoðum málið.

 • Mega leigjendur gera breytingar á íbúð?

  Almennt séð er ekki heimilt að gera neinar breytingar á íbúðum nema með leyfi Félagsbústaða. Að sjálfsögðu er þó í lagi að hengja upp myndir og aðra létta hluti á veggi.

 • Hvert skal leita vegna framkvæmda á vegum húsfélags þar sem Félagsbústaðir eru í minnihluta?

  Ef þú ert í forsvari fyrir húsfélag þar sem Félagsbústaðir á íbúð og framkvæmdir eru fyrirhugaðar skaltu senda okkur póst. Oftast nær fylgjum við meirihluta þegar kemur að samþykki fyrir endurbótum og framkvæmdum á sameign. Ef húsfélag stendur fyrir endurbótum og framkvæmdum við hverja íbúð fyrir sig skal þó senda okkur upplýsingar um verklýsingu og kostnað í tölvupósti áður en framkvæmdir hefjast. Í framhaldi af því sendum við svar til baka.

  Allar upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir og fundarboð vegna húsfunda óskast sendar í tölvupósti.

 • Merkja Félagsbústaðir stæði fyrir hverja íbúð?

  Við fjölbýlishús sem eru í fullri eigu félagsins eru stæði almennt ekki merkt íbúðum. 

  Þar sem Félagsbústaðir eiga stakar íbúðir er því fyrirkomulagi fylgt sem er viðhaft á hverjum stað fyrir sig eftir ákvörðun þess húsfélags.

 • Útvega Félagsbústaðir P-stæði og sérmerkja fyrir íbúa?

  Félagsbústaðir reyna að tryggja nægjanlegt framboð á P-stæðum miðað við fjölda leigjenda með P-skírteini og einnig gestkomandi. 

  Sérmerking á P-stæði er háð mati Velferðarsviðs á sérþörf P-skírteinishafa og skal sækja formlega um slíkt til félagsráðgjafa eða viðkomandi þjónustumiðstöðvar.

 • Veita Félagsbústaðir aðstoð með flutninga, losun úrgangs eða annað slíkt?

  Nei. Ef þú telur þig hafa brýna þörf eða rétt á aðstoð af fjárhagslegum eða öðrum ástæðum þá skaltu tala við félagsráðgjafann þinn.

 • Ég fékk bréf frá Motus, hvað þýðir það?

  Motus sér um að innheimta leigu sem komin er í vanskil fyrir Félagsbústaði.

  Ef húsaleiga er enn ógreidd 28 dögum eftir eindaga fer leigukrafa í milliinnheimtu til Motus. Þar er greiðanda gefinn 7 daga frestur til þess að ganga frá greiðslu eða samkomulagi. Sé húsaleiga enn ógreidd 3 mánuðum frá eindaga tekur við lögfræðiinnheimta hjá Lögheimtunni sem getur endað með útburðarferli. Nánari upplýsingar má nálgast á greiðendavef Motus, Ekki gera ekki neitt.

  Hjá Motus er eftir fremsta megni komist til móts við greiðendur og fundnar lausnir sem stuðla að farsælli áframhaldandi búsetu. 

 • Hvert leita ég varðandi greiðslu húsaleigu?

  Hafðu samband við okkur í síma, á netspjalli eða í tölvupósti og við skoðum málið með þér.

 • Hvernig ber ég mig að ef mig langar að fá mér dýr?

  Almennt heimila Félagsbústaðir dýrahald í eignum sínum, en það er þó alltaf háð samþykki annarra íbúa í viðkomandi stigagangi og húsfélagi eignarinnar. Nauðsynlegt er að fá skriflegt samþykki frá 2/3 hluta íbúa í stigaganginum áður en þú færð þér dýr. 

  Hafir þú fengið leyfi hjá öðrum íbúum í stigaganginum er nauðsynlegt að sækja um leyfi fyrir dýrinu og skrá hjá Reykjavíkurborg. Sjá nánari upplýsingar um hundahald og kattahald

  Í kjölfarið verður þú að passa það vel að dýrið þitt valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifn­aði, né raski ró nágranna þinna. Hundaeigendur verða að fjarlægja skít eftir hundinn jafnóðum og ala hundinn upp þannig að hann gelti ekki þegar hann er einn heima. Hundar mega heldur ekki vera lausir í sameign eða á lóð og verða að vera í bandi þegar þeir eru að koma eða fara frá íbúð.

 • Hvernig ber ég mig að ef ég vil fá flutning í annað húsnæði?

  Þú sækir um milliflutning hjá þjónustumiðstöðinni þinni. Öllum spurningum um milliflutninga og um biðtíma fyrir flutningi í aðra íbúð skal beina til Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar eða í þjónustumiðstöðina þína.

  Hafi milliflutningur verið samþykktur og þú fengið úthlutað annarri íbúð tekur við sambærilegt ferli og þú fórst í gegnum þegar þú fékkst fyrst úthlutað íbúð. Þú skalt hringja í okkur og fá tíma í að skoða nýju íbúðina þína. Ef þú ert samþykk/ur nýju íbúðinni færðu bókaðan tíma í undirritun leigusamnings. Við milliflutning er mikilvægt að breyta lögheimili hið fyrsta sem og endurnýja umsóknir um húsnæðisbætur og sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nýtt heimilisfang. 

  Við vekjum einnig athygli á því að þú hefur 5 virka daga til að skila gömlu íbúðinni þinni eftir að þú ert búin að fá þá nýju afhenta.

 • Hvert er ferlið sem fer af stað við ítrekuð húsreglnabrot?

  Við brot á húsreglum fær leigjandi skriflega aðvörun. Brjóti leigjandi húsreglur aftur getur það leitt til riftunar húsaleigusamnings og óskað verði eftir að íbúðin verði rýmd innan tiltekins frests. Í kjölfarið er í flestum tilvikum farið í vitjun til leigjanda með félagsráðgjafa frá þjónustumiðstöð þar sem áréttuð eru tilmæli um að leigjandi flytji úr íbúðinni. Í sumum tilvikum getur félagsráðgjafi boðið leigjanda önnur úrræði og því þarf sjaldnast að grípa til útburðar með atbeina dómstóla og/eða til rýmingar fyrir milligöngu sýslumanns.

  Neiti leigjandi hins vegar að rýma íbúðina þarf að höfða útburðarmál fyrir héraðsdómi og þegar úrskurður hans liggur fyrir er málinu vísað til sýslumanns með ósk um að hann annist rýmingu íbúðarinnar. Slíkt ferli getur tekið nokkurn tíma og fer eftir fjölda mála sem fyrirliggjandi eru hjá viðkomandi embættum á hverjum tíma.

 • Hvað er innifalið í hússjóð?

  Það er misjafnt milli fjölbýlishúsa hvað er innifalið í hússjóðsgjöldum. Það sem er oftast innifalið í hússjóðsgjöldum er hiti, rafmagn, umhirða lóðar t.d. garðsláttur, snjómokstur, sorphirða og endurvinnsla. Stundum eru aðkeypt þrif inní hússjóð en annars skipta íbúar með sér þrifum sameignar.

  Viljir þú vita nákvæmlega hvað er innifalið í hússjóðnum í þínu húsi skaltu hafa samband. 

 • Af hverju breyttist upphæðin á leigureikningnum mínum í þessum mánuði?

  Leiguverð íbúða Félagsbústaða er vísitölutengt og því getur leiguverð breyst smávægilega á milli mánaða.

  Ef mikil breyting var á upphæð leigureiknings getur orsökin verið breytt upphæð húsnæðisbóta eða sérstaks húsnæðisstuðnings

  Við bendum á að sundurliðaður greiðsluseðill birtist í heimabankanum þínum. 

 • Ég fékk senda aðvörun, hvað þýðir það?

  Aðvaranir eru sendar leigjendum í kjölfar alvarlegra brota á húsreglum. Þegar við sendum aðvörun erum við í sambandi við félagsráðgjafa og/eða aðra stuðningsaðila sem koma að máli viðkomandi leigjanda og leggjum alltaf áherslu á að veita leigjanda tækifæri til að bæta hegðun sína. Við ítrekuð og alvarleg brot á húsreglum getur komið til riftunar húsaleigusamnings og að óskað eftir að íbúðin verði rýmd innan tiltekins frests. Í einhverjum tilvikum getur komið til útburðar. 

  Hafir þú fengið aðvörun skaltu fara vel yfir efni hennar og taka tillit til þess sem þar kemur fram. Endilega hafðu samband ef eitthvað er óljóst. 

 • Hvað er innifalið í þjónustugjöldum?

  Félagsbústaðir innheimta þjónustugjöld vegna þjónustuíbúða fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

  Innifalið í þeim er sólarhringsvakt, öryggiskerfi, stjórnunar- og skrifstofuhald auk ræstingar á sameign og aðstöðu í setustofu. 

 • Hvernig ber ég mig að ef það eru númerslausir bílar á bílastæðinu við blokkina mína?

  Við reynum að tryggja að númerslausir bílar séu ekki að blokka bílastæði í húsum sem við eigum í heild. Búir þú í húsi sem við eigum allar íbúðir í máttu láta okkur vita af númerslausum bílum á bílastæðum í síma 520-1500 eða í tölvupósti.

  Ef þú býrð í stakri íbúð skaltu ræða við húsfélagið í húsinu sem þú býrð í.

 • Hvernig get ég fengið fleiri lykla að íbúðinni?

  Sé íbúðin í húsi sem Félagsbústaðir eiga að fullu biðjum við þig að hafa samband við okkur. 

  Eigi Félagsbústaðir húsið ekki að fullu, þ.e. ef um staka íbúð er að ræða, fer leigjandi sjálfur til lásasmiðs og óskar eftir smíðum á lyklum. 

  Leigjendur bera sjálfir kostnað vegna aukalykla. 

 • Hvernig get ég losnað við drasl úr sameigninni í blokkinni minni?

  Í húsreglum segir að ekki skuli skilja eftir drasl í sameign, t.d. á stigaganginum. Sé slíkt til staðar biðjum við þig að tilkynna það til okkar í síma 520-1500 eða í tölvupósti. 

 • Má ég mæta á húsfund í húsinu mínu?

  Þú mátt mæta á húsfund í húsinu þínu en athugaðu að þú hefur ekki atkvæðisrétt líkt og aðrir íbúar og eigendur íbúða í húsinu.

 • Er gluggaþvottur innifalinn í hússjóði?

  Nei, almennt er gluggaþvottur ekki innifalinn í hússjóði og Félagsbústaðir hafa sömuleiðis ekki staðið fyrir þrifum af þeim toga.

 • Hvað geri ég ef klósettið mitt er stíflað?

  Ef hefðbundnar leiðir við stíflulosun hafa ekki dugað til bendum við þér á að hafa samband við okkur og við leysum málið.

 • Er til sameiginlegur vettvangur fyrir leigjendur Félagsbústaða?

  Já, Blokkin er félag leigjenda hjá Félagsbústöðum. Nánari upplýsingar má finna á Facebooksíðunni þeirra.

 • Hversu lengi þarf ég að bíða eftir að erindi mínu sé svarað?

  Við svörum öllum erindum og setjum þau til afgreiðslu inn 24 klukkustunda eða næsta virka dag. Úrvinnslutími erinda getur verið mismunandi eftir eðli þeirra, t.d. eftir eðli viðgerðarbeiðna eða eftir því hversu flókinn samskiptavandinn er í húsinu sem þú býrð í. Þú getur treyst því að við vinnum málið eins fljótt og auðið er og munum upplýsa þig um stöðu mála eftir því sem við á. 

 • Þarf ég að kaupa tryggingar ef ég er leigjandi Félagsbústaða?
  Þú sem leigjandi þarft að tryggja þitt innbú sjálf/ur, kjósir þú að gera slíkt. Félagsbústaðir eru ekki bótaskyldir vegna hvers konar skemmda á innbúi.  Fasteignin sem slík er tryggð af Félagsbústöðum skv. lögum þar að lútandi.
 • Mega börn eldri en 18 ára búa hjá leigutaka?

  Börn leigutaka sem búsett eru hjá honum og ná 18 ára aldri eftir úthlutun húsnæðisins, er heimilt að vera áfram búsett hjá leigutaka eftir að 18 ára aldri er náð. 

Þessi vefur notar vafrakökur. Lesa skilmála