Fara á efnissvæði

Uppbygging og áherslur

Stefna borgaryfirvalda um að 5% íbúða í borginni séu félagslegar leiguíbúðir er liður í því að mæta grundvallarmannréttindum um húsnæði á viðráðanlegu verði og stuðla að betri efnahag, heilsu og auknum tækifærum einstaklinga til samfélagslegrar þátttöku.

Fjölgun leiguíbúða Félagsbústaða og áætlanir um uppbyggingu taka mið af áherslum borgaryfirvalda á hverjum tíma, oftast í fjögurra ára tímabilum, þarfagreiningu velferðarsviðs borgarinnar og samþykktum stjórnar Félagsbústaða.

Á tímabilinu 2018-2022 er gert ráð fyrir að fjölga íbúðum um 600, þar af 100 fyrir fatlað fólk. Félagsbústaðir kaupa íbúðir í öllum hverfum borgarinnar og er áhersla lögð á að hlutfallið af félagslegu leiguhúsnæði sé sem jafnast í hverfum borgarinnar og að jafnaði er við það miðað að Félagsbústaðir eigi ekki meira en 10% í fjölbýli þar sem eignarhald er dreift.

Við kaup á íbúðum taka Félagsbústaðir mið af reglum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um viðmiðunarstærðir við afgreiðslu umsókna um stofnframlög. Hámarksstærð miðað við fjölda herbergja er sem hér segir:

  • Einstaklingsíbúð     50 fm
  • 2ja herbergja íbúð  60 fm
  • 3ja herbergja íbúð  80 fm
  • 4ra herbergja íbúð  95 fm
  • 5 herbergja íbúð     110 fm

Við kaup á íbúðum er einnig horft til ástands íbúðar og viðhaldsþarfar sameignar, galla í byggingu, skipulags íbúðar, staðsetningu og nærþjónustu. Ekki eru keyptar íbúðir í kjallara og risi m.a. vegna aðgengis og viðhaldsmála. Alla jafna eru ekki keyptar íbúðir með aukaherbergjum í kjallara eða risi, með bílskúrum eða íbúðir á tveimur hæðum.

Þessi vefur notar vafrakökur. Lesa skilmála